Leiðbeiningar fyrir Mac

Leiðbeiningar fyrir Mac

Hvernig á að hreinsa disk á Mac tölvu

Notaðu Disk Utility til að hreinsa (e. erase) harðan disk, SSD, flash drif eða aðra gagnageymslu.

Athugið!

Það að hreinsa disk eða bindi (e. volume) eyðir öllum gögnum endanlega.
Gakktu úr skugga um að þú eigir afrit af þeim skjölum sem þú vilt halda.

Hvernig skal hreinsa disk

Haltu áfram með tilliti til þess hvort þú ert að hreinsa ræsidisk (e. startup disk) eða annars konar disk. Ræsidiskurinn er diskurinn, eða bindið, sem Mac tölvan ræsir sig upp frá. Það er diskurinn sem er innbyggður í tölvuna þína og heitir sjálfgefið Macintosh HD. Ef þú ert að selja, gefa eða setja tölvuna upp í nýja ættir þú að hreinsa ræsidiskinn.

Hreinsa ræsidisk

  • Ræstu tölvuna í macOS Recovery.
  • Veldu Disk Utility í macOS Utilities glugganum. Veldu svo Continue.
  • Gakktu úr skugga um að hliðarvalmyndin í Disk Utility sýni nafnið á ræsidisknum. Bindið sem stendur fyrir ræsidisknum er Machintosh HD, nema þú hafir endurnefnt diskinn. Sérðu hann ekki? Sjá neðst.
  • Leitaðu að bindi með sama nafni og merk „Data“, t.d. „Macintosh HD - Data“. Ef slíkt bindi er á tölvunni skaltu velja það. Veldu svo Edit > Delete APFS Volume frá tækjastikunni efst á skjánum, eða smelltu á Volume takkann (-) í Disk Utility.

    Þegar beðið er um staðfestingu skaltu ýta á Delete takkann. Ekki smella á Delete Volume Group. Gerðu slíkt hið sama við önnur bindi sem gætu verið á ræsidisknum - nema bindið sem heitir Macintosh HD.
  • Eftir að hafa eytt öllum Data bindum skaltu velja Macintosh HD í hliðarvalmyndinni.
  • Smelltu á Erase takkann og framkvæmdu eftirfarandi:
    Name: Sláðu inn nafn sem þú vilt að bindið beri eftir hreinsun, t.d. Machintosh HD.
    Format: Veldu annað hvort APFS eða Mac OS Extended (Journaled) til að forsníða diskinn sem Mac bindi. Disk Utility sýnir það forsnið sem mælt er með.
  • Smelltu á Erase til að hefja hreinsunina. Þú gætir verið beðin/n um að slá inn Apple ID og lykilorð.
  • Þegar hreinsun og forsniði er lokið skaltu loka Disk Utility og fara aftur í macOS Utilities gluggann.
  • Ef þú vilt að tölvan muni geta ræst sig upp frá þessu bindi á ný, skaltu velja Reinstall macOS í macOS Utilities glugganum og fylgja leiðbeiningunum sem koma á skjáinn til að setja upp macOS að nýju. Ef þú setur macOS ekki upp að nýju gæti tölva ræst sig upp á mynd af möppu með blikkandi spurningamerki (?).

Hreinsa annars konar disk

Skrefin hér að ofan virka einnig þegar hreinsa á geymsludisk eða -tæki sem er ekki nýtt sem ræsidiskur. Aftur á móti er ekki nauðsynlegt að opna Disk Utility í gegnum macOS Recovery: þú getur opnað Disk Utility frá Utilities möppunni undir Applications. Þú þarft heldur ekki að eyða bindinu fyrst: bara velja það í Disk Utility og smella á Erase.

Hvernig á að breyta skrárkerfi disks

Í sumum kringumstæðum gætir þú þurft að breyta skráarkerfi (e. partition map, scheme) við hreinsun. Ef þú ert að fylgja leiðbeiningum sem krefjast þess að valið sé ákveðið skráarkerfi, eru skrefin aðeins öðruvísi en þau hér að ofan.

  • Í Disk Utility, veldu View > Show All Devices.
  • Hliðarvalmyndin sýnir núna ekki aðeins bindi, heldur einnig diska sem hýsa bindin. Í dæminu hér að neðan er APPLE SSD diskurinn, Container disk1 er geymirinn og Macintosh HD er bindi í geyminum (aðeins APFS-forsniðnir diskar eru með geyma).
  • Veldu diskinn sem þú vilt hreinsa, eins og Apple SSD.
  • Skoðaðu upplýsingarnar sem koma fram hægra megin í glugganum til að komast að því hvaða skráarkerfi er á disknum nú þegar:
    GUID Partition Map er viðeigandi fyrir Mac diska.
    Master Boot Record er viðeigandi fyrir útanáliggjandi drif sem notuð eru með Windows tölvu eða Boot Camp.
  • Ef skráarkerfið er ekki viðeigandi fyrir ætlaða notkun disksins skaltu velja Erase og framkvæma eftirfarandi:
    Name: Sláðu inn nafn sem þú vilt að diskurinn beri eftir hreinsun, t.d. Apple SSD.
    Format: Til að forsníða sem Mac disk skaltu velja annað hvort APFS eða Mac OS Extended (Journaled). Disk Utility sýnir það forsnið sem mælt er með.
    Scheme: Veldu viðeigandi skráarkerfi.
  • Smelltu á Erase til að hefja hreinsun. Ef þú ert að hreinsa ræsidiskinn þinn gætir þú verið beðin/n um að slá inn Apple ID og lykilorð.
  • Lokaðu Disk Utility þegar hreinsun lýkur.
  • Ef þú vilt að tölvan muni geta ræst sig upp frá þessum disk, skaltu velja Reinstall macOS frá macOS Utilities glugganum og fylgja svo leiðbeiningunum sem koma á skjáinn til að setja macOS upp að nýju.

Af hverju að hreinsa disk?

Þú getur hreinsað disk eða bindi hvenær sem er, t.d. í eftirfarandi aðstæðum:

  • Þú vilt á fljótan og öruggan hátt eyða öllum gögnum af tölvunni þinni og endurstilla hana á verksmiðju stillingar, t.d. ef þú ætlar þér að selja, gefa eða setja tölvuna upp í nýja.
  • Þú þarft að breyta forsniði disks, t.d. frá Windows forsniði (FAT, ExFAT eða NTFS) í Mac forsnið (APFS eða Mac OS Extended).
  • Þú færð skilaboð um að tölvan geti ekki lesið þennan disk.
  • Þú ert að reyna að leysa vandamál sem Disk Utility nær ekki að laga.
  • macOS uppsetningin sér ekki diskinn eða getur ekki sett upp á honum. T.d. gæti uppsetningin sagt að diskurinn sé ekki rétt forsniðinn, er ekki að nota GUID skráarkerfi, inniheldur nýrri útgáfu af stýrikerfinu eða getur ekki verið notaður sem ræsidiskur.
  • macOS uppsetningin segir að þú megir ekki setja stýrikerfið upp á þessu bindi þar sem það er ekki hluti af Apple RAID.

Um APFS og Mac OS Extended

Disk Utility í macOS High Sierra og nýrri útgáfum, getur hreinsað flesta diska og bindi fyrir Mac með annað hvort nýrra APFS (Apple File System) forsniði eða því eldra, Mac OS Extended forsniði. Forritið velur einnig sjálfkrafa forsniðið sem hentar þinni tölvu.

Komast að núverandi forsniði

Ef þú vilt komast að því hvaða forsnið er í notkun getur þú komist að því með einhverri þessara leiða:

  • Veldu bindið í hliðarvalmyn Disk Utility, skoðaðu svo upplýsingarnar til hægri. Fyrir nákvæmari upplýsingar getur þú valið File > Get Info.
  • Opnaðu System Iformation og veldu Storage í hliðarvalmyndinni. File System dálkurinn til hægri sýnir forsnið (e. format) hvers bindis.
  • Veldu bindið í Finder, veldu svo File > Get Info. Get Info glugginn sýnir forsnið þess bindis.

Veldu á milli APFS og Mac OS Extended

Ef þú vilt breyta forsniðinu skaltu svara eftirfarandi spurningum:

Ertu að forsníða diskinn sem kom innbygður í Mac tölvunni?
Ef innbyggði diskurinn kom APFS forsniðinn skaltu ekki breyta honum í Mac OS Extended.

Ertu að fara að setja upp macOS High Sierra eða nýrra á diskinn?
Ef þú þarft að hreinsa diskinn áður en þú setur upp High Sierra eða nýrra í fyrsta sinn á disknum skaltu velja Mac OS Extended (Journaled). Í uppsetningarferlinu mun macOS uppsetningin ákveða sjálfkrafa hvort skipta skuli í APFS - án þess að eyða gögnunum þínum.

Ertu að undirbúa Time Machine öryggisafritunardisk eða utanáliggjandi ræsidisk?
Veldu Mac Os Extended (Journaled) fyrir disk sem þú ætlar að nota með Time Machine eða sem utanáliggjandi ræsidisk.

Muntu nota diskinn með annari Mac tölvu?
Ef hin Mac tölvan er ekki með High Sierra eða nýrra skaltu velja Mac OS Extended (Journaled). Eldri útgáfur af macOS geta ekki lesið APFS forsniðin bindi.

Disk Utility reynir að nema tegund geymslunnar og sýna viðeigandi forsnið undir Format. Ef Disk Utility getur það ekki mun það velja Mac OS Extended sjálfkrafa þar sem það virkar með öllum útgáfum af macOS.

Ef diskurinn kemur ekki upp í Disk Utility

Ef hliðarvalmyndin kemur ekki upp í Disk Utility getur þú valið View > Show Sidebar.

Ef hliðarvalmyndin kemur upp í Disk Utility en diskurinn sem þú ert að leita að kemur ekki upp þar skaltu aftengja öll ónauðsynleg tæki frá tölvunni. Ef diskurinn er utanáliggjandi skaltu halda honum tengdum, gakktu úr skugga um að kveikt sé á honum og hann tengdur með góðum kapli sem er í lagi. Endurræstu tölvuna og reyndu aftur. Ef diskurinn kemur enn ekki fram gæti hann eða tölvan þín þurft á þjónustu að halda. Farðu yfir hvað þarf að gera áður en þú leggur tölvuna þína inn í viðgerð.

Frekari upplýsingar

Útgáfudagur: 3. febrúar 2020

Vöruleit Epli

Hvernig tæki ertu með?

Útreikningur

Miðað við þessar upplýsingar er verðmatið á þínu tæki: